Sóknarnefnd

  • Friðrik Ingi Ingólfsson, formaður
    Valþjófsstað 2
    Gsm: 847 9214
  • Anna Bryndís Tryggvadóttir, ritari
  • Eiríkur Kjerulf, gjalderi

Organisti

Jón Ólafur Sigurðsson

Meðhjálpari

Friðrik Ingi Ingólfsson

Kirkjuvörður

Helga Hallbjörg Vigfúsdóttir

Um Valþjófsstaðarkirkju

Valþjófsstaður í Fljótsdal var um aldir eitt höfuðbóla Austurlands og kirkjustaður frá fornu fari. Samkvæmt elstu heimildum var Maríukirkja á Valþjófsstöðum, eins og bærinn var kallaður, fyrst hálfkirkja en varð staður árið 1306. Fyrsta aðalkirkja sóknarinnar var á Bessastöðum (Þorlákskirkja) en nálægt árinu 1200 varð kirkjan á Valþjófsstað aðalkirkjan. Lengi vel var prestsetur á Valþjófsstað en það lagt niður árið 2014 er Valþjófsstaðarprestakall sameinaðist Egilsstaðaprestakalli.

Valþjófsstaðarkirkja sem nú stendur var vígð 3. júlí 1966. Eldri kirkja frá 1888, sem stóð nokkru norðar, var afhent söfnuði „til umsjónar og ábyrgðar“ árið 1955. Grunnur nýju kirkjunnar var steyptur árið 1959. Grafið var fyrir henni 1957 en það dróst að endanlegar teikningar lægju fyrir. Einar Jónsson á Litlu-Grund sá um smíði kirkjunnar í fyrri áfanga, er kirkjan var gerð fokheld, en síðar sá Byggingarfélagið Brúnás á Egilsstöðum um að innrétta hana. Kirkjan er steinsteypt með plasteinangrun og bárujárnsklæddu þaki, fimm gluggar eru á hvorri hlið auk tveggja glugga á hvorum kórvegg. Söngloft er fremst í kirkjunni og hvílir það á sjö stoðum. Altari og kirkjubekkir eru úr gömlu kirkjunni en predikunarstóll og altarisgrindur eru jafngömul kirkjunni.

Valþjósstaðarhurðin frá um 1200 er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands. (Mynd: Þjóðminjasafnið).

Innri útihurðin á kirkjunni er eftirlíking af hinni frægu Valþjófsstaðarhurð sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands. Ætlað er að hurðin hafi verið skorin út skömmu eftir aldamótin 1200 en höfundur hennar er ókunnur. Árið 1851 var hún seld til Kaupmannahafnar í skiptum fyrir nýja hurð og tvo kertastjaka. Danir afhentu Íslendingum síðan hurðina aftur á alþingishátíðinni árið 1930.

Hurðin er talin einn af merkustu dýrgripum sem varðveist hafa á Íslandi. Bæði er það vegna aldurs og svo hefur útskurðurinn á henni vakið mikla athygli, hérlendis og erlendis, því hann þykir mjög vel unninn. Á hurðinni er silfursleginn járnhringur með innlögðu rósamunstri. Í efri hringnum er þekkt miðaldasaga í þremur þáttum. Útskurður hurðarinnar skiptist í tvo hringreiti. Þann efri prýðir þrískipt myndefni úr riddarasögu. Frásögnin hefst í neðri hlutanum þar sem riddari á hestbaki bjargar ljóni úr klóm ógurlegs dreka með því að reka hann í gegn með sverði sínu. Í efri hlutanum fylgir ljónið riddaranum eftir af tryggð og deyr að lokum á gröf hans. Neðri hringurinn er svo skreyttur fjórum drekum sem líta út fyrir að berjast með miklum atgangi, en bíta í reynd hver í eigin sporð. Talið er að hurðin hafi upphaflega verið þriðjungi hærri og hringirnir þá verið þrír, en sá þriðji horfið er hurðin var stytt þegar byggð var ný kirkja á Valþjófsstað á fyrri hluta 18. aldar.

Brottfluttir Fljótsdælingar gáfu kirkjunni nákvæma eftirmynd hurðarinnar á vígsludegi hennar. Er þetta listaverk skorið af Halldóri Sigurðssyni á Miðhúsum og því komið fyrir milli forkirkju og kirkjuskips.

Á árunum 1993-4 var forkirkjan var breikkuð verulega og turninn yfir henni endurbyggður. Við þetta fékkst rými fyrir skrúðhús og snyrtingu en heimafólk hafði fundið að aðstöðuleysi í kirkjunni strax þegar hún var í byggingu. Við breytinguna stækkaði söngloftið og fleiri sæti fengust niðri því stigi upp á loftið færðist yfir í nýja skrúðhúsið. Turn kirkjunnar var hækkaður og gerður reisulegri.

Þá voru miklar framkvæmdir við Valþjófsstaðarkirkju innanhúss á árunum 2001-2008. Þorsteinn Gunnarsson arkitekt var sóknarnefndinni til ráðuneytis um breytingar og litaval. Við þessar framkvæmdir naut kirkjan gjafa frá velunnurum. Steindir gluggar, eftir listakonuna Höllu Haraldsdóttur í Keflavík, voru settir í kirkjuna á afmælisárinu 2001 og listakonur á Héraði hönnuðu og saumuðu hvít messuklæði, hökul og tilheyrandi.

Skírnarsár Valþjófsstaðarkirkju, úr tré með málmskál og vatnskönnu, er frá 18. öld og ber fangamark sr. Hjörleifs Þórðarsonar á bakhlið skálarinnar. Í hans tíð, um miðja 18. öld, var kirkjan reist á grunni kirkjunnar sem staðið hafði frá því um 1200. Einnig á kirkjan kaleik, patínu og brauðöskju frá 18. öld, verk Sigurðar Þorsteinssonar en brauðöskjuna (baksturshús), sem er einkar falleg, gaf hann til minningar um foreldra sína.

Altaristöfluna, sem er dönsk og sýnir ummyndun Krists á fjallinu, gaf Kvenfélagið Einingin árið 1930. Tvær klukkur, fornar, eru í turni. Önnur er með áletrun og mynd af konungi í hásæti.

Orgelharmóníum var keypt á Valþjófsstað í tíð sr. Lárusar Halldórssonar (sjá Sigf. Sigfúss. Ísl. þjóðsögur og sagnir, R. 1982, I. bls. 433-434), á tímabilinu1877-´80. Hljóðfærið var keypt frá Hofi í Vopnafirði og mun fyrsta hljóðfæri keypt til nota í kirkju á Héraði og skutu sóknarmenn saman fé til kaupanna. Heimild er til um að sr. Þorvaldur Ásgeirsson hafi leikið á það en annars Kristín Guðjohnsen. Annað harmóníum var keypt árið 1896 (nú í Geitagerði) en nú er í kirkjunni ítalskt, tveggja hljómborða rafmagnsorgel frá 1992.

Sóknarmörk fylgja mörkum Fljótsdalshrepps við Hrafnsgerðisá og Gilsá, ystu bæir Droplaugarstaðir (Arnheiðarstaðir) og Hrafnkelsstaðir og Vallholt. Fram til 1823 tilheyrðu Aðalból og Vaðbrekka í Hrafnkelsdal einnig sókninni.

Heimildir:
Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011. Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi.
Eygló Björnsdóttir: vefir.unak.is/heimaslod/grennd/valthjofsstadur.html
Þjóðminjasafn Íslands: thjodminjasafn.is/fraedsla/fyrir-born/valthjofsstadahurdin/nr/2452