Sóknarnefnd

  • Stefán Geirsson, formaður
    Ketilsstöðum
    Gsm: 894 1028
  • Ragnheiður Haraldsdóttir, sóknarnefndarmaður
  • Svandís Sigurjónsdóttir, sóknarnefndarmaður

Organisti
Jón Ólafur Sigurðsson

Meðhjálpari
Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar

Um Sleðbrjótskirkju

Íbúar í Jökulsárhlíð áttu kirkjusókn yfir Jökulsá að Kirkjubæ í Hróarstungu. Samþykkt var árið 1920 að skipta Kirkjubæjarsókn og gera Hlíðina að sérstakri sókn, Sleðbrjótssókn. Stjórnarráðið staðfestir þá skiptingu með bréfi árið 1925 (17/4) og farið er að huga að kirkjubyggingu á Sleðbrjót sem var mikið átak fyrir ekki fjölmennari sókn.

Á héraðsfundi á Fossvöllum 15/9 1883 var lesið bréf Hlíðarmanna til prófasts dagsett 18/12 1882 „um að fá reista kirkju í Hlíðinni helst á Sleðbrjót, að Kirkjubæjarprestur sé skyldaður til að flytja þar messu og að hún verði byggð fyrir peninga Kirkjubæjarkirkju.“ Þetta fékk góðar undirtektir og m.a. var samþykkt að leggja fram allt að 1000 kr. frá Kirkjubæjarkirkju gegn a.m.k. jafnháu framlagi Hlíðarmanna.

Fimm bændur í Jökulsárhlíð tóku að sér að sjá um byggingu kirkjunnar árið 1926 fyrir lágt verð. Þeir voru: Elías Jónsson, Hallgeirsstöðum, Gunnar Jónsson, Fossvöllum, Björn Guðmundsson, Sleðbrjótsseli, Björn Sigbjörnsson, Surtsstöðum og Stefán Sigurðsson, Sleðbrjót.

Kirkjan, sem er steinkirkja, er byggð eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, turni þó sleppt en tveir steyptir krossar eru á kirkjunni. Lítil forkirkja gengur inn í vesturenda kirkjunnar en skrúðklefi þiljaður af austurenda kórsins, þvert yfir.

Yfirsmiður var Guðjón Jónsson frá Freyshólum. Byggingarefni var flutt frá Seyðisfirði á Ker. Bændur unnu mikið í sjálfboðavinnu. Guðni Þorsteinsson frá Reyðarfirði múrhúðaði. Trésmíðavinnu innan dyra önnuðust Stefán Sigurðsson á Sleðbrjót og Sigurður Elíasson, Hallgeirsstöðum. Fyrst var messað í kirkjunni (óvígðri) fyrsta góudag 1927. En 10. júlí árið 1927 vígði sr. Einar Jónsson, prófastur á Hofi, fyrrum prestur Hlíðarmanna, kirkjuna.

Kirkjan hefur nú öll verið einangruð og klædd að utan, hvelfingin undir risinu einangruð og kórinn smíðaður upp í sinni upprunalegu mynd. Skipt var um glugga í kirkjunni árið 1988. Sömuleiðis hafa bílastæði og malarstígur verið gerð við kirkjuna. Snorri S. Guðvarðsson málaði kirkjuna að innan og lagfærði árið 2002.

Kirkjan á margt góðra gripa sem margir eru gjafir. Altaristaflan, Kristur í Getsemane, er gjöf Kvenfélags Hlíðarhrepps. Kirkjuklukka, lítil, er úr Kirkjubæjarkirkju en eldri og stærri klukka með ártalinu 1745 og nafni Rustikusar Þorsteinssonar er í geymslu.

Hljóðfæri kirkjunnar (Joh. P. Andresen & Co.), sem enn er í notkun, gaf Gunnar Jónsson á Fossvöllum vorið 1928. Fyrsti „forsöngvari“ (organisti, lengi) í kirkjunni var Björn Kristjánsson frá Hnitbjörgum síðar bóndi í Grófarseli.

Nýir bekkir hafa verið smíðaðir og studdi Sigurður Elíasson það verk með myndarlegri gjöf en hann smíðaði upphaflegu bekkina. Þjónustuhús með safnaðarsal, snyrtingu og eldhúskrók var blessað við Sleðbrjótskirkju árið 2009. Húsið teiknaði Einar Ólafsson byggingafræðingur en Tréiðjan Einir EHF byggði.

Erfitt gat verið að koma líkum til greftrunar að Kirkjubæ en það var þó vegna eigin fyrirmæla að Eiríkur bóndi Hallsson á Sleðbrjót var jarðsettur þar árið 1894 án heimildar kirkjuyfirvalda en konungsbréf frá 1896 heimilar heimagröft á Sleðbrjót. Þessi heimagrafreitur var vígður árið 1909 og þá loks kastað rekum á leiði Eiríks þó prestur hafi annast útför hans. Sigmundur Jónsson í Gunnhildargerði byggði upp þennan, hátt upp hlaðna, reit. Annar, almennur grafreitur, var gerður 1921 en lík þeirra 5 sem hvíldu í honum voru flutt, haustið 1927, í grafreit sem gerður var umhverfis hina nýju kirkju. (Sjá grein Geirs Stefánssonar í 21. árg. Múlaþings). Heimagrafreitir eru auk þess á Torfastöðum, Hnitbjörgum, Hlíðargarði (Fögruhlíð) og Hrafnabjörgum.

Sleðbrjótssókn nær yfir það svæði sem tilheyrði Hlíðarhreppi og voru Fossvellir innsti bærinn en síðar (frá 1963) nýbýlið Selland. Sókninni var þjónað frá Kirkjubæ fram til 1956 en síðan frá Eiðum. Síðari hluta ársins 1964 þjónaði þó sr. Björn O. Björnsson Kirkjubæjar- og Sleðbrjótssókn frá Egilsstöðum.

Forðum voru 3 bænhús í Hlíð, á Hrafnabjörgum, Sleðbrjót og Torfastöðum. Sr. Einar Jónsson prófastur á Kirkjubæ (1889-1909) messaði undir berum himni hvert sumar á Sleðbrjót. Jökulsá, sem skilur að Hlíð og Tungu, var mikill farartálmi þegar sækja þurfti í Kirkjubæ. Á héraðsfundum 1881 og 1885 er rætt um þörf fyrir ferju á Jökulsá vegna Hlíðarmanna. Lögferja kom á ána við Sleðbrjót 1895 (Ferjulágar út og niður af bæ) og var þar fram á 7. áratug 20. aldar, líklega síðasta lögferja í landinu. Brú hefur verið á Jökulsá sunnan við Fossvelli, frá því á miðöldum, nokkru utar en núverandi brú (Agnar Hallgrímsson, Múlaþing 3.). Hún hefur nýst fólki innarlega í sókninni til kirkjuferða. Erfiðar þverár hafa líka verið farartálmi innan sóknarinnar áður en þær voru brúaðar. Gamall ferjustaður var við Galtastaði út (18. öld), á Galtastaðahyl (Ferjuholt norðvestur af bæ) og fram yfir það að kirkja kom á Sleðbrjót. Þetta er raunar sami ferjustaður og við Sleðbrjót en hentugt var að hafa ferjur við báða árbakka því áin var svo breið að erfitt var að kalla yfir hana. (Sjá nánar grein A.A. „Farartálminn Jökla“, Glettingur2.-3. tbl. 2007).

Hár og sérkennilegur hóll innan við Hellisá, í landi Ketilsstaða, heitir Biskupshóll og er  fögur grund sunnan undir honum og falleg lind sprettur undan hólnum. Sagður kenndur við Guðmund biskup góða sem hefur þá líklega blessað lindina. Gvendarbrunnur er uppaf bænum á Breiðumörk og annar í landi Fossvalla við Fremri-Stóralæk. Tangi í Fögruhlíðarhólma heitir Prestanes. Blettur í túni á Sleðbrjót nefndist Bænhústeigur. Krosssund eru bæði í landi Sleðbrjóts (ná yfir í land Surtsstaða) og Hallgeirsstaða en tilefni nafnsins ekki þekkt. Biskupsbrekka, brött brekka á leiðinni upp heiðina í landi Fossvalla innan við Laxá og Biskupsmelar utan við ána, minna á yfirreiðir Skálholtsbiskupa.

Heimildir:
Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi.