Sóknarnefnd
Brynhildur Einarsdóttir, formaður
Smáragrund, 701 Egilsstöðum
Gsm: 8682215
Netfang: binnae[hjá]simnet.is

Guðmundur Ólason, gjaldkeri
Guðrún Agnarsdóttir, ritari
Sólrún Hauksdóttir, varamaður

Kirkjuvörður og meðhjálpari
Guðrún Agnarsdóttir

Um Hofteigskirkju

Hofteigur á Jökuldal er gamall kirkjustaður og ríkur staður fyrr á tímum og jörðin þótti afar góð til sauðfjárræktar. Kirkjan var forðum helguð Maríu guðsmóður. Samkvæmt Landnámu var teigur, milli landnáms Þorsteins torfa og Hákonar, milli Teigarár og Vikalækjar, lagður til Hofs. Heitir Goðanes við Jökulsána utan við Teigarána og þar er lækurinn Blótkelda og friðlýstar tættur sem taldar hafa verið menjar hofs. Gvendarbrunnur er skammt frá íbúðarhúsi í Hofteigi.

Kirkjuna lét sr. Stefán Halldórsson reisa árið 1883 (rangt ártal í sumum vísitasíugjörðum), yfirsmiðurinn hét Jón Magnússon. Líkur má leiða að því að þetta hafi verið Jón Magnússon smiður, prestssonur frá Kirkjubæ.

Kirkjan var turnlaus í upphafi en með lítilli forkirkju. Gagngerð viðgerð fór fram á henni árið 1931. Gólf og undirlag var endurnýjað og veggirnir járnklæddir. Bætt var við turni á stöpli og steyptur skorsteinn og kirkjan máluð utan og innan. Umsjón með þessum framkvæmdum hafði Þorkell Björnsson í Hnefilsdal.

Aftur voru miklar framkvæmdir við kirkjuna og hún nánast endurbyggð 1970-71 undir stjórn Völundar Jóhannessonar. Forkirkja var stækkuð og turninn a.m.k. hækkaður. Ragnar Emilsson arkitekt gerði útlitsteikningar vegna þessara breytinga (sem þó var ekki fylgt nákvæmlega). Í þetta sinn kostaði ríkissjóður framkvæmdirnar því sr. Ágúst Sigurðsson, sóknarprestur Vallanesprestakalls frá 1966-´70 sem þjónaði Hofteigi, áttaði sig á þýðingu þess að aldrei hafði verið gengið frá afhendingu kirkjunnar í hendur söfnuði þó að hann hafi í reynd farið með fjármál hennar (og kirkjubóndi tekið á sig vissar skyldur) eftir að prestur hvarf frá Hofteigi.

Samkomulag var gert um að söfnuðurinn tæki formlega við kirkjunni – standsettri – úr höndum ráðuneytis (engin gögn hafa fundist um afhendingu kirkjunnar).

Enn var tekið til hendinni við Hofteigskirkju á árunum 1996-97 og var hún þá máluð að innan og utan og færð í fyrra horf undir stjórn Húsafriðunarnefndar. Síðar smíðaði Sigurður Ólafsson nýja hurð fyrir kirkjuna.

Þjónustuhús, með litlum safnaðarsal, salerni og eldhúskrók, var reist við kirkjuna árið 2006 og var það blessað á pálmasunnudag það ár. Húsið teiknaði Björn Kristleifsson en Tómas Friðjónsson smíðaði.

Altaristafla Hofteigskirkju, Kristur læknar blinda manninn, er frá árinu 1897 eftir danska listmálarann Anker Lund (keypt 1902). Guðbrandsbiblía kirkjunnar er varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Egilsstöðum.

Á Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum getur að líta tvo, forna og merka muni úr Hofteigskirkju sem afhentir voru safninu árið 1997. Annars vegar er það altaristafla, sem trúlega er frá 18. öld, ámálaðar fjalir í rauðum ramma og eftirtalin átta myndefni: Boðun Maríu, fæðing Jesú, Jósef og María með barnið í musterinu, krossfestingin, upprisan, himnaförin, heilagur andi gefst postulunum og Kristur í helju. Málarinn er ókunnur.

Hins vegar er á Minjasafninu rósóttur, handsaumaður hökull úr Hofteigskirkju frá árinu 1744. Er hann gjarnan nefndur Álfkonuhökull en frá því er sagt, í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, að huldumaður úr Mælishól, handan Jöklu, hafi gefið hann og fleiri kirkjugripi sem legkaup eftir mennska konu sem hann seiddi inn í hólinn til sín. Öllu jarðbundnari skýring er þó einnig til nefnilega sú að sóknarpresturinn sr. Guðmundur Ingimundarson, sem þjónaði Hofteigi frá 1738-1774, hafi lagt kirkjunni til hökulinn, hvaðan svo sem hann hafði hann.

Kirkjuklukkurnar tvær eru taldar fornar en eru án áletrana.

Samskot voru meðal safnaðarfólks árið 1903 til að kaupa hljóðfæri fyrir kirkjuna en nú er í kirkjunni ítalskt rafmagnsorgel af sömu gerð og í Eiríksstaðakirkju.

Hofteigssókn nær (frá 1892) upp í Arnórsstaði og Merki og út að mörkum við fyrrum Hlíðarhrepp. Heiðarbýlin: Ármótasel, Hlíðarendi, Háreksstaðir og Lindasel tilheyrðu einnig Hofteigssókn.Aðeins er vitað um bænhús á Hvanná en Bænhústóftarhóll er á Hauksstöðum. Kirkjugarður er umhverfis kirkjuna og forn kirkjugrunnur neðar, utan við bæjarlæk, og einnig eldri kirkjugarður, sléttaður, á hinum gamla Kirkjuhól gegnt kirkjunni utan við lækinn. Heimagrafreitir eru á eftirtöldum bæjum: Hvanná, Hjarðarhaga, Skjöldólfsstöðum, Merki og Hnefilsdal.

Síðasti Hofteigsprestur, sr. Þorvarður Þormar, sat staðinn til 1928. Prestakallinu var síðan þjónað í aukaþjónustu frá Kirkjubæ til ársins 1956 en þá frá Eiðum. Árið 1959 varð sóknin þó hluti af endurreistu Kirkjubæjarprestakalli sem enginn sótti um fyrr en 1964 er sr. Björn O. Björnsson þjónaði því í hálft ár. Sókninni var svo þjónað í nokkur ár frá Vallanesi en frá 1970 hafa sóknir á Jökuldal tilheyrt Valþjófsstaðarprestakalli sem rann inn í Egilsstaðaprestakall síðla árs 2014.

Gamall ferjustaður var við Skeggjastaði vegna kirkjuferða og þar riðið yfir á Strákavaði þegar lítið var í ánni. Ferjað var einnig ýmist við Hofteig (innan við Staðará) fram um 1940 eða Hvanná, síðast á Svelg (Svelgshyl), milli bæjanna, en oft var áin ófær. Goðavað eða Þrælavað var undan Goðanesi við Hofteig, síðar nefnt Taglavað (eftir Töglum í Hnefilsdalslandi). Um tíma var dráttur á Jöklu við Teigasel en Teigará, rétt ofan við Teigasel, var oft ófær á vorin eftir að brúna tók af henni. Þarna mun hafa orðið síðasta banaslys við kláfferju árið 1939 (sjá grein Björns Þorkelssonar, Glettingur 1:1993). Kláfferja var við Skjöldólfsstaði (Gauksstaði) og vað. Enn er kláfur í góðu ástandi við Merki (áður innar) en vatnavextir í Tregagilsá hindruðu að Hákonarstaðabrú nýttist Merkisfólki á vorin og brú kom ekki á Jöklu við Merki fyrr en 1975.

Heimildir:
Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi