Sóknarnefnd
Þórhallur Pálsson, formaður
Eiðavöllum 2, 701 Egilsstöðum
Gsm: 863 3682

Ágústína Sigríður Konráðsdóttir, gjaldkeri
Heiður Ósk Helgadóttir, ritari

Organisti
Jón Ólafur Sigurðsson

Fundargerðir

Aðalsafnaðarfundur Eiðasóknar 9. maí 2017

Um Eiðasókn

Eiðar eru gamalt höfuðból og kirkjustaður. Forræði staðar og kirkju var með öðrum hætti en algengast var í landinu. Eiðar voru ekki „staður“ (beneficium) á forræði kirkjunnar heldur kirkjubændanna, ábúenda, sem réðu presta til þjónustu við kirkjuna og voru þeim oft fengnar til búsetu stólsjarðir í nágrenninu svo sem Ormsstaðir. Eiðum hefur stundum verið þjónað frá Vallanesi eða Hjaltastað. Kirkjan var auðug að landareignum og ítökum og talað um Eiðastól sem minnir á biskupsstólana. Hæst ber í sögunni veldi Margrétar ríku á Eiðum á 16. öld.

Árið 1882 keyptu Múlasýslur Eiðastól með gögnum og gæðum og fylgdi forræði yfir kirkjunni. Skólastjórar Búnaðarskólans urðu kirkjuhaldarar og Guttormur Vigfússon, fyrsti skólastjórinn, stendur fyrir byggingu Eiðakirkju samkvæmt ákvörðun skólanefndar. Hann fékk lærðan smið úr Skagafirði, Gísla P. Sigmundsson, til að stjórna smíðinni. Guttormur var kvæntur Sigríði systur Gísla sem var hinn mesti hagleiksmaður. Hann byggði einnig Barðskirkju í Fljótum og var verðlaunaður fyrir uppfinningar en þekktust þeirra varð taðkvörnin. Kappsamlega var unnið að aðdráttum og smíði kirkjunnar sumarið 1885 og var hún komin í nothæft ástand síðla árs 1886. Í úttekt Eiðakirkju frá 1889 er upphaflegri gerð kirkjunnar lýst og tekið fram að hún haldi eignum sínum og ítökum.

Kirkjan er timburhús sem hvíldi upphaflega á grjóthleðslum. Hún er turnlaus og breiðari og með minni þakhalla en títt var. Nýjung mun og hafa verið að bekkirnir (bríkurnar) hölluðust ívið aftur á bak. Að utan er kirkjan með listaklæðningu úr heilum borðum. Kross er á vesturgafli kirkjunnar, hvítmálaður. Kirkjan var í upphafi með spónaþaki yfir þaki úr plægðum borðum og var mikið af þeim úr eldri kirkju. Spónaþakið var farið að gefa sig árið 1898 og sett var á kirkjuna járnþak.Yfir kirkjudyrum stóðu upphaflega ritningarorðin: „Guð er kærleikurinn 1. Jóh. 4.16“ en nú: „Hér er vissulega Guðs hús og hér er hlið himinsins 1. Mós. 18.27.“ Tvær gamlar, áletraðar, kirkjuklukkur eru í porti yfir dyrum. Sú stærri var steypt fyrir Eiðakirkju í Kaupmannahöfn árið 1806 en minni klukkan var steypt árið 1708.

Kirkjan var verulega gerð upp 1986 og m.a. smíðaðir nýir bekkir og hún flóðlýst að utan (gjöf Lionsklúbbsins Múla). Fyrir 130 ára afmæli hennar 2016 voru smíðaðir nýir gluggar í kirkjuna, garður var girtur og hún máluð ljósgrá eins og hún upprunalega var.

Kirkjan á ýmsa muni og eru margir þeirra minningargjafir. Kristslíkneskið (róðan) stóra, sem nú er yfir dyrum inni, mun frá kaþólskri tíð. Altaristaflan, upprisumynd, er (eftirmynd) eftir Carl Bloch (1834-1890). Númerataflan frá 1807 er úr gömlu kirkjunni. Silfurhúðaður kaleikur og patína eru mjög gömul. Veglegan skírnarfont, verk Halldórs Sigurðssonar á Miðhúsum og Hlyns sonar hans, gáfu prestshjónin sr. Einar Þór Þorsteinsson og Sigríður Zophoníasdóttir árið 1976.

Vitað er að Hallur Björnsson spilaði eitthvað í Eiðakirkju á norskt orgelharmóníum sem Jónas Eiríksson (síðar á Breiðavaði) keypti 1893 en kirkjan eignaðist hljóðfæri árið 1896 (fór í Ormsstaði) og það vor er Sigurður Sigurðsson frá Fögruhlíð, síðar kennari á Seyðisfirði, ráðinn organisti. Nú er í kirkjunni enskt rafmagnsorgel sem kom í kirkjuna um 1970 en þá ekki nýtt.

Lítið safnaðarheimili vestan kirkjunnar var blessað á 120 ára afmæli hennar árið 2006. Það smíðaði Stefán Jóhannsson á Þrándarstöðum eftir teikningu Björns Kristleifssonar arkitekts. Söfnuður tók við forsjá kirkjunnar árið 2005.

Maríukirkja var á Eiðum í kaþólskum sið. Fornar heimildir eru um kirkju í Mýnesi, helgaða Nikulási, og fram um 1600 er þar hálfkirkja. Þar heitir Kirkjuhöfði út og niður (norður) frá bæ einnig til örnefnið Prestakershöfði.

Heimagrafreitir eru á Breiðavaði og Finnsstöðum. Legstaðir fundust í Gilsárteigi (1949 og ´56-´57) frá árdögum kristni.

Árið 1856 kom til framkvæmda sameining Eiðaprestakalls og Hjaltastaðarprestakalls (lög frá 1823) og flutti þá sr. Jakob Benediktsson frá Eiðum í Hjaltastað. Með lögum frá 1907 voru báðar þessar sóknir lagðar undir Kirkjubæ en Eiðum er þó þjónað frá Hjaltastað til 1919. Eiðaprestakall var endurreist árið 1959. Prestur var þó kominn fyrr því eftir 100 ára fjarveru prests var sr. Einari Þór Þorsteinssyni ákveðinn staður á Eiðum árið 1956.

Sóknin náði yfir Eiðahrepp, ystu býlin Hleinargarður og Hamragerði. Áður voru sóknar- og hreppamörk inn til landsins við Eyvindará. Árið 1965, nokkru eftir að Egilsstaðasókn var stofnuð, voru bæirnir innst í sókninni sem tilheyrðu Egilsstaðahreppi (frá 1947) færðir yfir í Egilsstaðasókn, þ.e. Eyvindará, Steinholt (Miðhús og Dalhús). Uppsalir eru nú innst í Eiðasókn.

Nokkuð er um örnefni í sókninni sem tengja má kirkju og kirkjuferðum. Þegar komið er að sunnan í Eiða sér til kirkjunnar af veginum á Kirkjuhöfða (Kirkjuhöfðatjarnir þar niður af). Prestavík heitir við austanvert Eiðavatn niður af byggingum Kirkjumiðstöðvar Austurlands (rangmerkt á korti, bls. 132, í Árbók F.Í.2008). Í Snjóholti er Kirkjugata í hallanum niður að Fitinni, nyrst í Kinnartúninu. Frá Gilsárteigi lágu götur til kirkju framan í Tíðamel (upp af Stekkás). Kirkjugötur frá Tókastöðum og Ásgeirsstöðum lágu út um Ásdæld utan og ofan við Ásgeirsstaðaás. Í landi Brennistaða er Kirkjuholt. Krosshöfði er á mörkum Breiðavaðs og Mýness, suður frá bæ (fleiri krossörnefni). Brúin við Lagarfossvirkjun varð til mikils hagræðis fyrir Eiðaprest en dæmi er um að hann hafi farið á ferju við Ekru yfir í Kirkjubæjarsókn.

Heimildir
Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi