Jesús sagði: ,,Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja (Jóh. 11.26).

Þegar einhver úr söfnuðinum deyr fer fram útfararathöfn, jarðarför, venjulega í kirkju og síðan greftrun í kirkjugarði. Einkenni útfararathafnar er hin kristna von um upprisu og eilíft líf. Jesús Kristur frelsar frá dauðanum. Í trú á hann leggjum við þau sem við kveðjum í vígða mold. Grafreitir og kirkjugarðar eru sérstaklega helgaðir í þessu skyni, nema þeir reitir sem ætlaðir eru fyrir þau sem eru utan kirkju eða tilheyra öðrum trúarsamfélögum. Sjá nánar um útfarir á heimasíðu Þjóðkirkjunnar.

Að mörgu er að huga við andlát ástvinar. Velja þarf prest, dagsetningu útfarar, fá vottorð og leyfi til útfarar, svo fátt eitt sé nefnt. Prestar eru aðstandendum innan handar við undirbúning útfarar.

Minnisatriði fyrir aðstandendur við andlát:

  • Tilkynna andlátið vinum og vandamönnum.
  • Auglýsa andlátið í fjölmiðlum (blöð og útvarp).
  • Taka saman helstu æviatriði og lífshlaup: fæðingardag, foreldra, systkini, maki og börn, giftingardag, nám og menntun, helstu störf, áhugamál og þátttaka í félagsstarfi.
  • Ákveða tíma fyrir kistulagningu og útfaradag í samráði við prest.
  • Velja kirkju og tónlistarfólk.
  • Velja kistu og líkklæði.
  • Flutningur á kistu. Lionsklúbburinn Múli rekur líkbíl á Egilsstöðum.
  • Vottorð hjá sýslumanni. Sækja dánarvottorð hjá lækni/sjúkrahúsi. Síðan fara aðstandendur til sýslumanns og fá skriflega staðfestingu – leyfi til útfarar. Þá afhenda þeir prestinum staðfestinguna.
  • Ákveða kirkjugarð og legstað.
  • Auglýsa hvenær og hvar útför fari fram (t.d. í Dagskrá).
  • Velja sálma í samráði við prest og organista eða tónlistarfólk. Vel fer á að hafa 5-7 sálma við útförina. Algengt er að síðasti sálmur sé Allt eins og blómstrið eina.
  • Blóm og skreytingar í kirkju. Blómaskreytingar á kistu og blóm á altari. Blóm og kransar frá aðstandendum.
  • Gera eigi sálmaskrá, eigi hún að vera.
  • Ákveða hverjir bera kistuna (líkmenn), 6 eða 8 við athöfn og í kirkjugarði.
  • Ákveða hverjir bera kransana og skreytingar úr kirkju. (Venja er að kransar, krossar og skreytingar sem bera borða fylgja kistu í garð. Önnur blóm taka aðstandendur með sér úr kirkju. Meðhjálpari stýrir athöfninni í kirkju eftir að sjálf útförin hefur farið fram. Afhendir kransa og blóm, leiðbeinir líkmönnum og leiðir líkgöngu úr kirkju að bíl eða að legstað í kirkjugarði).
  • Ákveða hverjir afhenda sálmaskrár.
  • Erfidrykkja.
  • Athuga með útfararstyrk frá stéttarfélagi.
  • Athuga með merkingu á leiði, kross eða legsteinn.
  • Athuga með þakkarkort/auglýsingu.

Allar frekari upplýsingar veita prestarnir.

Moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, en andinn til Guðs, sem gaf hann. (Pd. 12.7).