Um helgina stóð Austurlandsprófastsdæmi fyrir leiðtogaþjálfun í Kirkjumiðstöð Austurlands á Eiðum. Þátttakendur voru ungmenni á aldrinum 15-17 ára, sem hafa verið virk í kirkjustarfi í söfnuðunum sínum um lengri tíma og hafa áhuga á að bæta við sig reynslu og þekkingu sem leiðtogar í kirkjustarfinu.
Gunnfríður Katrín Tómasdóttir er starfandi fræðslufulltrúi Austurlandsprófastsdæmis og hafði veg og vanda af dagskránni. „Þessi hópur var einstaklega skemmtilegur og námsfús, þau koma frá öllu Austurlandi og voru öll sem eitt tilbúin til að reyna sig við verkefni og nýjar aðstæður“, segir Gunnfríður.
Þátttakendur voru 44 og þeim var skipt upp í nokkra hópa sem fengu ólík verkefni. Til að mynda stóðu þátttakendur sjálfir fyrir allri eldamennsku og þrifum – enda þarf kirkjuleiðtogi að vera liðtækur í því líka. Fræðslustundir og æfingar snerust m.a. um uppbyggingu helgihalds, samskipti, valdeflingu ungs fólks og trúarleg tákn í umhverfinu okkar.
Farskóli leiðtogaefnanna hefur verið haldinn um árabil og mikilvægur hluti í faglegri leiðtogaþjálfun þjóðkirkjunnar um allt land. Prestar og leikmenn koma og hitta ungmennin og deila með af sinni reynslu sem leiðtogar í kirkjunni.
Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir tók að sér fræðslu um helgihald kirkjunnar á námskeiðinu. „Við byrjuðum á því að allir fóru í minni hópa og ræddu um hvað þeim fannst mikilvægast í helgihaldinu og hvaða hughrifum við verðum fyrir þegar við komum í kirkjuna“ sagði Kristín. „Orð eins og kyrrð, friður, bæn og gleði, komu þar oft fyrir.“
Það er bjart yfir þjóðkirkjunni á Austurlandi og framtíðarleiðtogum hennar, og von á góðu úr þeim hópi.