Torvald Gjerde og Hlín Pétursdóttir Behrens við orgelið (mynd Jónas Þór Jóhannsson)

Torvald hefur verið organisti og kórstjóri í Egilsstaðakirkju um árabil og einnig virkur í tónlistarkennslu og tónlistarlífi Héraðsins á þeim tíma. Í hugann koma óneitanlega orð Jesú í Fjallræðunni þegar hann segir að við eigum að vera ljós og salt jarðar og hafa þannig góð og holl áhrif á umhverfið okkar. Torvald á sannarlega skilið að heyra að starf hans hefur borið ávöxt sem við njótum svo mörg hér á svæðinu.

 

Það sem gleður okkur í kirkjunni sérstaklega er að sjá hvað áhugi á orgelleik hefur verið ræktaður – enda hefur sú drottning hljóðfæranna sérstakan stað í kirkjulífinu. Á tónleikunum um helgina komu tvær ungar konur sterkar inn í orgelleik og þar vekur óneitanlega bjartsýni um framtíð organistastarfs í kirkjunni okkar.

 

En orgelið var ekki eina hljóðfærið sem lék hlutverk á tónleikunum um helgina. Píanó, fiðla og gítar komu einnig við sögu og þar léku börn Torvalds stórt hlutverk. Og gamlir kunningjar eins og Schubert, Schuman, Purcell og Ingi T, kíktu við auk sálma- og vísnaskálda frá Noregi og Svíþjóð. Tónskráin var skemmtilega og fjölbreytilega  samansett og gladdi á svo margan hátt.

 

Við í Austurkirkjunni þökkum kærlega fyrir fallega tónleika og óskum Torvald innilega til hamingju á þessum tímamótum.