Páskamessa í Seyðisfjarðarkirkju 2019 teikning Anna Mastnikova

 

Fyrsta dag vikunnar fór María snemma á fætur, svo snemma að það er enn myrkur. En það var ekki fögnuður páskanna sem rak hana á fætur, sorgin hafði haldið fyrir henni vöku. Það er enn nótt fyrir augum. Þessi morgun var ekki gleðidagur. Þetta var erfiður dagur, sorgardagur. Með öllum þeim einkennum sem syrgjendur þekkja. Doða, söknuði og sárum trega.

María er við gröfina og grætur.

María grét og tár Maríu eru raunveruleg, sorgin er átaknleg. Hún veit ekki hvar Jesús er, hún skilur ekki hvað er að gerast. Tvisvar eru hún spurð, fyrst eru það englarnir sem spyrja og hitt skiptið er það Jesús; Kona, hví grætur þú og í hvort skipti þá skýrist sýn hennar og hugsun. Í spurningunni er engin dómur, heldur er þetta einlæg spurning full af umhyggju.

María fær að tjá þjáningu sína þegar Jesús spyr.

Tárin tjá djúpa sorg og djúpan kærleika. Djúpan söknuð. Við verðum að spyrja okkur sjálf og svara; af hverju grætur þú? hvaðan kemur sársaukinn og sorgin þín? Og við grátum af ólíkum ástæðum. Yfir óvissri framtíð, yfir óréttlæti. vinum sem þjást, eða missi. Það er mikilvægt að afneita ekki tárum okkar frekar en María.

Krossinn var raunverulegur og sársaukafullur og mjög mennskur. Jesús upplifði þennan sársauka og þau sem unnu honum. En dauðinn er ekki bara veruleikinn í líkhúsinu, dauðinn er þar sem lygar eru, neysla, þar sem samskipti eru afbökuð og brengluð, rofin tengsl. Dauðinn er það eitur sem skilur okkur frá Guði og öðrum manneskjum.

Við erum að takast á við okkar eigin sársauka, óvissu, höfnun og ringulreið. Engin kemst í gegnum áföll öðruvísi en að takast á við sorgina og gangast við henni. En sorgin er ekki það sem Guð ætlar okkur. Guð ætlar okkur miklu meira en það.

Jesús talaði við Maríu, en hún þekkir hann ekki og heldur að hann sé garðyrkjumaðurinn. En hann spyr hana aftur og þá breytist allt, hulunni er svipt af augum Maríu. María snýr sér að honum. Hreyfingin þarna er lykilatriði. María snýr sér að Jesú og það að snúa sér að Jesú, er afgerandi hreyfing. Fyrst sjáum við ekki og skiljum ekkert. Við áttum okkur ekki á hinum nýja veruleika. Það er mikilvægt að fyrir okkur að muna að þetta er ferli. Alveg eins og María þarf að snúa sér að Jesú þurfum við að snúum okkur í átt að nýju lífi, þetta er umbreytingarferli. Páskadagsmorgun hefur breytt öllu.

María snýr sér að Jesú vegna þess hann kallar á hana. Og það er hreyfing og ferli, ekki einu sinni heldur aftur og aftur í lífinu, endurtekið.

Umbreytingin frá því að sjá ekki og skilja ekki til trúar er á mörgum sviðum, það er hjartað sem tekur við Guði og gefur Guði rými. María flýtir sér til lærisveinanna og segir frá því að hún hafi séð Drottinn. Það er að birta. Og í birtu páskadagsins verður allt mögulegt. Jesús leiðir til lífsins. Páskarnir eru hið nýja líf.

Það er trúin.

Megi orð Maríu verða okkar, ég hef séð Drottin.

Gleðilega páska.

 

Jóhannes 20.11-18

Jesús birtist Maríu Magdalenu

11 En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina 12 og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. 13 Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ 14 Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
15 Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“
Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“
16 Jesús segir við hana: „María!“
Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)
17 Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“
18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það sem hann hafði sagt henni.