Einu sinni kvað langa-langa-langa-langa-langa- langa-langa-langa-langa-langa- langa- langaafi minn og forveri í starfi „Nóttin var svo ágæt ein“. Þetta var enginn annar en Sr. Einar Sigurðsson prestur í Eydölum í Breiðdal. Til hans geta nefninlega flestir ef ekki allir Íslendingar rakið ættir sínar.  Sálmurinn sem ég vitna í er vitaskuld jólasálmur sem fjallar um það þegar Jesús fæddist. Það var sannarlega ágæt nótt, nóttin sem frelsarinn fæddist, en oft gleymist önnur nótt sem er eiginlega engu síðri. Aðfangadagsnótt páska, en það er einmitt nóttin fyrir upprisu Jesú Krists. Þessi nótt ersveipuð miklum leyndardóm og dulúð.

Víða um hinn kristna heim þekkist sá siður að vera með svokallaða páskavöku um miðnæturbil, þar sem bál er kveikt fyrir utan kirkju og síðan er ljós tendrað á kerti eða kyndli og borið inn í kirkjuna. Þetta er táknmynd þess að ljósið og lífið sé borið inn í gröfina og umsköpun eigi sér stað. Til verður alveg ný sköpun. Hún er þess eðlis að maðurinn Jesús verður himneskur, óforgengilegur og getur birst og horfið eins og honum sýnist. Það er einfaldlega eins og hinn forgengilegi og efnislegi heimur eigi ekki lengur við hann.

Nóttin er margt og táknar margt. Annars vegar er hún táknmynd dauðans, hins hryllilega, þegar draugar, skrímsli og forynjur fara á stjá. Í óupplýstum heimi er nóttin myrk og við sjáum illa, það er auðvelt að villast af leið. Hins vegar er nóttin einnig sá tími sem við sofum og hvílumst. Margt gerist á nóttinni í líkamanum okkar og huga. Það er víst þannig að svefninn er okkur lífsnauðsynlegur. Sá sem er vansvefta er úrillur, ónæmiskerfi hans veikist og þannig má líklega lengi telja upp ókosti þess að sofa lítið. Íraun eru engir kostir við það að sofa lítið.

Því er það bæði kærkomið að hafa ljós nálægt okkur til þess að lýsa okkur veginn, ef við þurfum að fara um í myrkri, og einnig er svefninn kærkominn til þess að við getum gengið inn í nýjan dag algjörlega endurnýjuð. Þessi ágæta nótt fyrir páskadag er svartnætti sálarinnar þar sem ljós lífsins kemur inn í gröfina og gerir alla hluti nýja. Líkama, sál og anda.

Mér finnst Kólussubréfið gefa nokkuð skýra mynd af hlutdeild okkar í þessari upprisu. Sagt er: „…fyrst þið eruð uppvakin með Kristi“. Þessi orð gefa ákveðna mynd af því að við höfum verið sofandi, en það er ekki endilega sá svefn sem endurnærir heldur miklu nær því að vera sá svefn sem gefur okkur ekkert. Það er svefninn í hinu daglega amstir þar sem við fljótum áfram án þess að taka eftir nokkrum sköpuðum hlut. Það er svefninn sem dregur okkur burt frá raunveruleikanum. Það er svefninn sem gerir okkur í raun andlega fjarverandi. Enda heldur Kólussubréfið áfram: „…því að þið eruð dáin og líf ykkar er fólgið með Kristi í Guði“. En við erum ekki bara dáin heldur erum við upprisin frá þessum dauða. Þegar Kristur er orðinn líf okkar þá erum við vakandi, sköpunin verður ósjálfrátt ný í augum okkar, snertingu og í raun allri skynjun okkar. Hið gamla á ekki við okkur lengur því við erum vakin upp frá okkar andlega dauða og sjáum sjálf að við erum ný sköpun. Við upplifum okkur sjálf og umhverfið allt á nýjan hátt: „…þá munuð þið og ásamt honum (Kristi) opinberast í dýrð“ (Kólussubréfið).