Eitt af farsælustu verkefnum kirkjunnar er farskóli leiðtogaefna. Námið er tveir vetur og kennt er eftir aðferðafræði sem byggir á æskulýðsþjálfun innan ramma óformlegs náms. Nemendur eru mjög virkir og hafa mikið að segja um útkomu og þróun námsins.  Í vetur var samstarfið við ÆSKEY endurvakið við mikla ánægju þátttakandenda og leiðtoga. Voru rúmlega 30 nemendur frá Norður- og Austurlandi skráðir í farskólann og þar af er tæplega helmingur að klára seinna árið sitt.

Námsefni vetrarins var hópavinna, það var skoðað hvernig félagsstarf virkar og hvernig á að halda fundi, hvernig á að takast á við vandamál og breyta þeim í verkefni. Hvernig hægt er að nota kvikmyndir í æskulýðsstarfi í æskulýðsstarfi, t.d. sem kveikju að umræðum. Fjallað var um kristið samfélag í trú og gleði og þjóðkirkjuna almennt. Nemendur fengu kynningu á hjálparstarfi. Og að lokum voru framsögn og tjáning æfð. Samhliða farskólanum taka leiðtogaefnin þátt í barnastarfi í sínum sóknum.

Jóhann Þorsteinsson, annar höfunda efnisins og margreyndur í kennslu og æskulýðsstarfi var skólastjóri í farskólanum í vetur en með honum voru prestar og æskulýðsstarfsfólk úr báðum prófastsdæmum.

Nú um helgina hittust nemendur frá Egilsstöðum og Seyðifirði og kláruðu veturinn. Myndir eru frá þeirri samveru.