Sóknarnefnd
Margrét Björk Sigurjónsdóttir, formaður
Sunnufelli 8, 700 Egilsstöðum
Gsm: 899 2476

Ásgerður Felixdóttir, ritari
Bergsteinn Brynjólfsson, varamaður
Drífa Sigurðardóttir, varamaður
Gunnar Björnsson, varamaður
Helgi Hjálmar Bragason, sóknarnefndarmaður
Hrafnkell Guðjónsson, varamaður
Kristján A. Guðþórsson, sóknarnefndarmaður
Sigurveig Björnsdóttir, varamaður
Vigfús Hjörtur Jónsson, gjaldkeri

Organisti
Drífa Sigurðardóttir

Meðhjálpari
Bergsteinn Brynjólfsson

Kirkjuvörður
Sigurveig Björnsdóttir

Kirkjusel, Smiðjuseli 2
Safnaðarsalur og skrifstofa prests

Um Áskirkju:

Ás í Fellum er forn kirkjustaður og fyrrum prestssetur. Líklegt er talið að þarna hafi verið kirkja frá upphafi kristni en í kaþólskri tíð var kirkjan helguð Maríu guðsmóður. Páll biskup Jónsson getur kirkju í Ási í kirknatali sínu frá því um 1200. Ás hélst í bændaeign til 1662 en þá keypti Brynjólfur biskup Sveinsson jörðina og ánafnaði hana kirkjunni. Prestar sátu jörðina eftir það í rúmlega tvær aldir (1669-1884) uns Ásprestakall var sameinað Valþjófsstaðarprestakalli 22. desember 1883 og síðasti presturinn á Ási, sr. Sigurður Gunnarsson, fluttist í Valþjófsstað vorið 1884. Jörðin Ás hefur verið í eyði frá 1962 en hún komst aftur í bændaeign árið 1910. Söfnuðurinn tók við fjárhaldi og umsjá kirkjunnar árið 1957.

Áskirkja í Fellum var reist úr timbri árið 1898 er sr. Þórarinn Þórarinsson þjónaði sókninni og var Vigfús Kjartansson, frá Sandbrekku, yfirsmiður. Kirkjan var vígð 30. október sama ár. Áður stóð á sama grunni allmyndarleg timburkirkja en eitthvað minni, frá 1851. Úr þeirri kirkju er altaristaflan sem er litlu eldri en sú kirkja. Hún sýnir Krist á krossinum og er erlend en ekki er vitað hver listamaðurinn var. Predikunarstóllinn og númerataflan eru sömuleiðis úr þessari gömlu kirkju.

Kvenfélagið Dagsbrún gaf kirkjunni vandaðan skírnarfont í tilefni 75 ára afmælis kirkjunnar 1973. Hann er fagurlega útskorinn af Þórarni Stefánssyni frá Mýrum í Skriðdal.

Árið 1976 hófst gagngerð viðgerð á Áskirkju, sem Húsiðjan hf. sá um undir forystu Ástráðs Magnússonar byggingameistara, samkvæmt tillögum Bjarna Ólafssonar lektors, og ýmsu viðhaldi verið sinnt síðar, m.a. var raflögn endurnýjuð 2010. Snorri S. Guðvarðsson hóf að málaði kirkjuna að innan í upprunalegum litum árið 2011.

Í kirkjunni er ítalskt rafmagnssorgel en það leysti af hólmi harmoníum sem keypt var 1892. Fyrsti organistinn mun hafa verið Sigurður Jónsson í Hrafnsgerði.

Eftir að verulega fjölgaði í Fellabæ vildu sumir flytja kirkjuna þangað eða byggja kirkju þar út frá en um 13 km eru inn að Ási. Í stað þess að hefja framkvæmdir við kirkjubyggingu festi sóknin kaup á húsnæði í fjölnotahúsi í Fellabæ þar sem innréttaður var rúmgóður safnaðarsalur, fundaherbergi og skrifstofa ásamt eldhúsi, snyrtingum og geymslu og fékk það nafnið Kirkjusel. Biskup Íslands vígði Kirkjuselið 16. nóvember 2003. Kirkjuselið er nýtt undir helgihald og annað safnaðarstarf auk fundahalds og ráðstefna tengdum kirkjunni. Við Áskirkju var reist þjónustuhús árið 2008 sem bætir alla aðstöðu við kirkjuna, þar er kaffiaðstaða snyrting, geymsla og skrúðhús. Tréiðjan Einir ehf. hafði veg og vanda af byggingu hússins.

Í sókninni eru þrír kirkjugarðar. Niðurlagður garður er við kirkjuna og annar allfjarri henni. Árið 1984 var vígður nýr kirkjugarður í Ekkjufellsseli við Fellabæ. Heimagrafreitir eru algengir í sókninni eða 15 talsins. Þessi fjöldi grafreita, sem er einsdæmi, mun að nokkru leyti tengjast vandamálum sem við var að etja með kirkjugarð á Ási (sjá ritgerð Heiðveigar Agnesar Helgadóttur 2010: Heimagrafreitir í Fellum).

Mörg örnefni í sveitinni marka gamla kirkjuleið, má þar nefna Kirkjuklauf, Prestalág, Tíðaklett og Prestsás. Við Teigará í landi Holts er Prestsbotn ,,þar stanzaði Valþjófsstaðarprestur oft á ferð sinni meðfram Fljótinu“ (Örnefnaskrá).

Heimildir:
Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi
Kirkjur á Austurlandi, Áskirkja: https://www.nat.is/Kirkjur/Kirkjur%20austurland%20askirkja.htm