Í dag er hinn heilagi hvíldardagur, sabbatum sanctum. Kyrrasti dagur hinnar kyrru viku.

Kyrra vika kallast vikan fyrir páska og í henni minnumst við pínu Krists og krossdauða. Á páskadag fögnum við upprisunni, fögnum nýjum degi, nýjum tíma. Þetta er dagurinn sem Drottinn dvelur í gröf sinni, dagurinn þegar dýrð Drottins er hulin.

Hinn heilagi laugardagur. Hvað ber hann með sér? Á föstudaginn langa dó Kristur á krossinum, tók á sig syndir manna, mínar syndir og þínar. Og á þriðja degi, páskadegi, reis hann upp frá dauðum. Dagurinn þar á milli er dagurinn í dag. Þegar Drottinn dvelur meðal hinna látnum, þegar hann prédikar fyrir öndunum í varðhaldinu og leysir þá. Þetta er dagurinn sem María og lærisveinarnir syrgðu Jesú í skugga föstudagsins langa. En við syrgjum okkar ástvini í skini upprisunnar, vitandi að það sem dó verður reist upp til lífs. Fagnaðarerindi páskanna: Kristur er upprisinn og kallar okkur til eilífs lífs.

Gegnum Jesú helgast hjarta

í himininn upp ég líta má,

Guðs míns ástar birtu bjarta

bæði fæ ég að reyna’ og sjá,

hryggðar myrkrið sorgar svarta

sálu minni hverfur þá.

 

Þetta vers úr Passíusálmum Hallgríms á vel við í dag, við horfum til himins en gerum það í gegnum Jesú helgast hjarta. Og það sem mætir augum okkar er kærleikurinn og friðurinn, vonin. Allt það sem bægir frá okkur hinu svarta hryggðar myrkri. Vitandi að páskasólin skín að nýju.

Í dag erum við kyrr og hljóð. Á morgun koma páskar. Á morgun kemur gleðitími.