Föstudagurinn langi.

Já hversvegna langi?

Sumir dagar, eru bara alveg ofsalega langir dagar. Sumir dagar eru þannig, að þú hreinlega veist ekki hvort þú komist í gegnum þá eða ekki. Það er stundum talað um að taka einn dag í einu þegar erfiðleikar steðja að, en stundum er það bara of erfitt líka. Stundum þarf maður bara að taka einn klukkutíma í einu og reyna að komast í gegnum hann. Svoleiðis eru sumir dagar.

Á Föstudaginn langa minnumst við krossfestingar Jesú Krists. Það er mikil virðing sem fylgir þessum degi og einhver áþreifanlegur þungi sem við erum minnt á þegar við sjáum flaggað í hálfa stöng víða um bæ. Dagurinn minnir okkur á sorgina, óréttlætið og erfiðleikana og það verður þungt yfir okkur þegar við dveljum þar í hugsun.

En það er allt í lagi. Það er allt í lagi að dvelja á krossinum á smá tíma. Að leyfa sér að syrgja, vera leið, reið og döpur. Reyndar er það bara nauðsynlegt stundum. Tilfinningar koma og fara og þessar tilfinningar mega líka stundum bara fá að vera.

 

Föstudagurinn langi hefur verið einn af þessum dögum sem hefur verið lengi að líða. Það var ekkert réttlæti í því fólgið að Jesús væri tekinn af lífi. Ég er alveg viss um það fannst móður hans og vinum að minnsta kosti ekki. Sorgin var þeim yfirþyrmandi tilfinning þennann dag.

En æðruleysi Jesú á krossinum er aðdáunarvert. Hann tekur bara við þessu hlutskipti. Hann streytist ekki á móti eða reynir að komast undan, hann reynir ekki að deyfa tilfinningar sínar, heldur bara tekur á móti örlögum sínum.

,,Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn“, voru seinustu orð Jesú samkvæmt Lúkasarguðspjalli. Þar vitnar hann í bænarorðin í sálmi 31 sem flestar mæður af gyðingaættum kenndu börnum sínum að fara með áður en þau fóru að sofa. „í þínar hendur fel ég anda minn“.

Örlög okkar eru í höndum Guðs. Hans vilji mun verða. Jesús vissi það og hann treysti því, þó hann væri vissulega hræddur. En hann dvaldi á krossinum og tók því sem var.

Það er það sem við öll þurfum á einhverjum tímapunkti í lífi okkar að gera. Að dvelja í þjáningunni. Eina leiðin útúr henni er að leyfa sér að dvelja þar um stund. Það er það sem þessi dagur minnir okkur meðal annars á. Að stundum þurfum við bara að leyfa okkur að vera sorgmædd og reið. En við vitum hvað bíður og þó að suma daga sé erfitt að ímynda sér að það muni nokkurntíman birta á ný, þá vitum við innst inni að það mun gera það, því við þekkjum söguna.. við þekkjum hvað er handan krossins.

 

Þuríður Björg W. Árandóttir